Byrjunin á hlaupasumrinu

By Íris Dóra Snorradóttir
May 21, 2023

Eitt af markmiðum sumarsins er að keppa oft og taka þátt í ýmsum hlaupum sem eru í boði, fara inní þau með mismunandi markmið, semsagt ekki alltaf að fara til að bæta minn besta tíma. Heldur líka til þess að fá reynslu og góða æfingu sem ég keyri aðeins áfram, þó svo að ég sé ekki að reyna að bæta tímann minn. Það er samt hægara sagt en gert, fyrir mig að minnsta kosti þar sem ég hef alltaf sett mikla pressu á mig þegar kemur að keppnum. Því að þó svo að þú farir í hlaupið á þeim hraða sem á að vera góð æfing þann daginn, þá sérðu enda tíman og hann er ekki eins góður og þinn besti þó svo að þú hafir tekið svolítið á því. Síðan eru önnur hlaup seinna í sumar sem maður undirbýr sig aðeins betur, mætir ferskur og reynir að bæta tíman sinn í þeirri vegalengd. Fyrir utan það er alltaf gaman að hitta aðra hlaupara í keppnunum og njóta.

Ég ákvað að skella mér í PuffinRun sem er haldið ár hvert í Vestmannaeyjum og er utanvegarhlaup. Ég skráði mig í 21km en ég hef aldrei áður hlaupið jafn langt utanvegarhlaup þar sem ég hef ekki mikla reynslu af utanvegarhlaupum þar sem ég lít frekar á mig sem brautar og götuhlaupara, en finnst gaman að taka þau reglulega. Ég ákvað að taka heila helgi í þetta ævintýri og fór þangað á föstudeginum. Markmið mitt var að öðlast reynslu, gera mitt besta og hafa gaman. Hlaupið byrjaði á nokkurnvegin flata þar sem ég er sterk. Þannig að ég náði að byrja nokkuð vel. Eftir það komu brekkur, hæðir, steinar, sandur og allskonar erfiðari aðstæður sem þurfti að tækla.

Ég ákvað að taka 10km í Mýrdalshlaupinu. Það er utanvegarhlaup og fannst 10km henta mér vel að þessu sinni. Ég endaði með að vera fyrsta konan og fékk síðan að vita eftir hlaupið að ég hafi gert brautarmet, en þetta hlaup hefur verið haldið í 10 ár. Síðan var förinni heitið á Hellu á Stracta hótel þar sem Árshátíð WorldClass var haldin. Ekki leiðinlegt að fagna þessu með þeim hætti.

Nokkrum dögum síðar fór ég algjörlega á hinn endan og tók þátt í 800m á braut á Selfossi og um hádegið daginn eftir var síðan 10km Fjölnishlaup. Ég ætlaði þá, eins og ég nefndi í byrjun, að taka þetta sem góða æfingu svo að þetta hlaup var liður í því. Það gekk vel. Skemmtileg braut, smá vindur og brekkur í endan sem er ekki mitt uppáhald, en samt lúmskt skemmtilegt og ég hef gott af því! En ég varð fyrst kvenna og fékk í fyrsta skiptið faraldsbikar.