Kenía!

By Íris Dóra Snorradóttir
Apr 15, 2023

Fyrstu dagarnir í Kenía hafa verið mjög fínir. Hótelið sem ég er á er stílað inná íþróttamenn og konur og er ótrúlega fínt. Ég er þar í fullu fæði og það er áhugavert að prófa að borða mat frá Kenía, en mér finnst hann vera hollur og góður. Á hótelinu er fínn garður og sundlaug. Einnig er líkamsræktaraðstaða þar sem hægt er að gera styrktaræfingar, en sú aðstaða er mjög fín og hægt er að fara til íþróttanuddara. Ég æfi 2-3 á dag í um þrjár vikur.

 


Staðurinn sem ég er á og æfi að mestu leiti heitir Iten og er í um 2400m hæð. Þar er ég að hlaupa í lofti sem er þynnra en það sem við eigum að venjast á Íslandi. Maður fær því ekki eins mikið súrefni og er að “streða meira”. Svona loftslagi þarf að venjast og því voru fyrstu hlaupaæfingarnar frekar rólegar. Með tímanum finnur maður ekki eins mikið fyrir því þar sem líkaminn framleiðir fleiri rauð blóðkorn sem gera manni auðveldara með að hlaupa í svona hæð. Ég tek yfirleitt eina hlaupaæfingu á morgnanna kl 07:00 og aðra seinnipartinn. Gæða/ hraðaæfing eru sirka þrisvar í viku og eru þá seinnipartinn. Inná milli eru teknar smávegis styrktaræfingar. Fyrir mér er algjör draumur að geta æft svona nánast eins og atvinnuíþróttamaður og geta einbeitt sér svona vel að því. Með tímanum er síðan hægt að auka tempóið aðeins á æfingum. En hér þarf líka að hlusta á líkaman.

Ég fór á tartan braut í Eldoret en þar voru að æfa hópar af mjög góðum hlaupurum frá Kenía og sumir þeirra í heimsklassa. Heimabúar í Kenía finnst mér upp til hópa mjög almennilegir, kurteisir og yfir höfuð glatt fólk. Umhverfið er svolítið öðruvísi en við megum venjast í Evrópu. Margt svolítið gamaldags og styttra komið en þó ekki allt. Hægt að finna margt nútímalegt líka. Annars er umhverfið mjög fallegt.