Lífið hér er mikið þannig að það eru æfingar, og síðan frítími þar sem við megum í rauninni gera það sem við viljum. En við notum hann oft í að gera okkur klár fyrir næstu æfingu, fara á sundlaugabakkann, nærast, skoða bæinn eða eitthvað þess háttar. Síðan með tímanum finnur maður að hlaupaæfingarnar verða betri þar sem háfjallaloftið er farið að venjast, sem er mjög jákvætt að finna.
Eftir töluvert mikið af æfingum var komið að hvíldardegi hjá hópnum og þá var tekin helgi í Safarí garðinn. Þar fórum við allir íslendingarnir og eyddum heilum degi í bíl að skoða dýrin sem eru í sínu náttúrulega umhverfi í Afríku. Skemmtilegast fannst mér að sjá gíraffana en því miður sá ég ekki ljón. Við gistum síðan í húsi þarna í grennd við svæðið og fórum síðan aftur í garðinn daginn eftir. Eftir þetta hófst ný æfingarútína. Fann að ég var mjög fersk í líkamanum eftir þessa helgi. Einn daginn fór ég með strákunum í smá ævintýri á stað að hlaupa þar sem var halli allan tíman, en leiðin var í heild 23km með um það bil 7% halla. Við byrjuðum í 1300m hæð og fórum hæðst upp í 2600m hæð. Ég hljóp 5km fyrst, tók síðan pásu, og hljóp síðan 5 og ½, pása og endaði með að hlaupa 7km í restina. Flestir strákarnir fóru þetta án þess að stoppa, en þetta var svolítið erfitt, en ég hef rosa gott af þessu þar sem brekkurnar eru ekki beint minn styrkleiki. En umhverfið var mjög flott. Þetta verður mjög eftirminnileg ferð og margt skemmtilegt sem gerðist. Síðan fór að styttast í annan endan á ferðinni, en hún leið mjög hratt. Ég mun fara aftur til Kenía, það er klárt!