Ferðin til Santa Monica

By Íris Dóra Snorradóttir
Nov 11, 2023

Ég fór til Bandaríkjana fyrir stuttu og var þar í tvær vikur. Ég var í Santa Monica í Los Angeles og þetta er í þriðja skiptið sem ég fer þangað, en mér finnst þessi staður æði og mér finnst nánast allt vera þarna sem ég er að leita að. Það er frábært að æfa þarna og endalaust úrval af góðum líkamsræktarstöðvum, brautarvöllum fyrir hlaupin, flottar hlaupaleiðir, hægt að æfa við ströndina o.fl. Ég notaði þessar tvær vikur til þess að koma mér á góðan stað í hlaupunum og æfingum eftir hvíldartímabilið, æfa fyrir maraþonið í Valencia í desember og auðvitað til þess að komast í sól og hafa það næs. Það tókst svo sannarlega og það má segja að flestum markmiðum ferðarinnar var náð og ég gat æft mjög vel. Mér finnst æðislegt að vera þarna og ég mun koma þarna reglulega áfram.

Ég sinnti styrktaræfingunum auk þess vel og ég er alltaf í líkamsrækt þarna úti sem heitir Equinox, en sú aðstaða er frábær. Ég get eytt miklum tíma á svölunum þar úti í sólinni í allskonar styrktaræfingum. Það eru góð tæki á stöðinni, stöðin er flott, góð staðsetning nálægt öllu og þægilegt andrúmsloft. Ég æfði hlaupin vel og tók nokkur löng hlaup en þetta er auðvitað drauma umhverfi til þess að hlaupa í. Sól og hiti, án þess að það sé of heitt, strendur og góðar hlaupaleiðir. Síðan tók ég hraðaæfingar á brautarvöllum sem eru þarna í kring. Það er mikið úrval af hlaupakeppnum allar helgar víðsvegar í Californiu. Ég tók þátt í einu 5km hlaupi í byrjun ferðar á Docksweiler beach og það gekk vel miðað við beint eftir hlaupahvíld. Fyrir utan allt þetta var ég aðallega í fríi og að njóta þess að vera þarna í Santa Monica.