Maraþonið í Valencia

By Íris Dóra Snorradóttir
Dec 08, 2023

Snemma í sumar ákvað ég að skrá mig í maraþonið í Valencia sem var 3.desember. Ég vissi af hóp af sterkum hlaupurum sem ætluðu að fara og mér fannst þetta strax spennandi. Ég hef litla sem enga reynslu af heilu maraþoni, prófaði það fyrir nokkrum árum en náði ekki að hlaupa það allt og hafði því aldrei hlaupið þessa vegalengd, vitandi að ég gæti það 100%. Ég er töluvert betri hlaupari núna og því mjög spennandi að taka stöðuna á mér í maraþoni. Tímapunkturinn á keppninni hentaði mér vel þar sem það voru engar aðrar keppnir nálægt og inannhústímabilið byrjar seinna. Undirbúningurinn byrjaði fyrir alvöru í október eftir hvíldartímabilið. Þá fór ég til Californiu og náði að æfa vel þar í sólinni. Síðan þegar ég kom til Íslands hélt undirbúningurinn áfram og ég prófaði mig áfram í gelinntöku og fleira.

Markmiðið mitt persónulega var að fara þannig séð pressulaus í þetta maraþon, taka stöðuna á mér, njóta en samt að keyra á það. Það má segja að það hafi tekist hjá mér uppá 10u. Ég var mætt til Valencia tveimur dögum fyrir keppni. Þarna var góður og skemmtilegur hópur af íslenskum hlaupurum saman komnir, margir af þeim mjög vanir maraþonhlauparar og ég fékk góð ráð frá þeim. Á sunnudagsmorgunin var maraþonið og ég var mjög reddý í hlaupið. Það var mikil og góð stemming í kringum maraþonið, mikið af fólki enda eitt stærsta maraþonhlaup í heimi. Ég byrjaði hlaupið og fann hraða sem ég vissi að ég gæti haldið og leið vel á. Það má segja að ég hafi haldið jöfnum hraða allt hlaupið og ég get sagt að mér leið vel í ölllu hlaupinu. Ég vildi hlaupa þetta save þar sem reynslan mín í þessari vegalengd er ekki mikil. Ég náði því að njóta og taka vel inn reynsluna og stemninguna í kringum þetta. Ég veit að ég á mun meira inni en ég hef nægan tíma. Ég var 3klst og 17 mínútur með þessa 42km og ég fann ekki fyrir miklum stífleika nema mögulega á síðasta km. Eftir hlaupið náðu íslendingarnir að koma saman þarna á staðnum þrátt fyrir fjöldan af fólki og það var gaman að ná að hitta þá svona beint eftir hlaup. Síðan var dúllað sér um daginn og notið síðasta dagsins í Valencia. Líkaminn var alveg merkilega góður strax eftir hlaup og ég gat labbað þarna um allan daginn og ég var líka góð daginn eftir hlaupið.

Þessi maraþonferð var því mjög vel heppnuð en síðan tekur við innanhústímabilið í hlaupunum og því fer ég að æfa hraðan meira núna.